Þorsteinn Arnalds, einn af aðstandendum útgáfufélagsins Andríkis, segir að stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar hafi gerst sekir um frekju þegar þeir fóru með gífuryrði og hávaða í fjölmiðla. Þetta segir Þorsteinn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þorsteinn gerir ummæli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um andstæðinga Evrópusambandsaðildar að umtalsefni. Um helgina lýsti Þorgerður Katrín þeim sem vildu draga umsóknina til baka sem svartstökkum. Þorsteinn bendir á að ákvörðun um að slíta viðræðum hafi verið tekin á landsfundi flokksins.

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er æðsta vald í málefnum hans. Hafi landsfundur með skýrum hætti tekið ákvörðun um stefnu flokksins í mikilvægu grundvallarmáli, þá verður henni auðvitað ekki breytt með einhverjum ummælum í sjónvarpsþætti,“ segir Þorsteinn. Hann bendir á að það séu svik að fara ekki eftir öllu því sem sagt er í sjónvarpsþáttum, þá séu það enn meiri svik að fylgja ekki eindregnum samþykktum landsfundar

„Það er ótrúleg frekja þegar þeir, sem aldrei fá stefnu sína samþykkta á landsfundi, reyna að hertaka flokkinn með hávaða og stóryrðum í fjölmiðlum í von um að þingmenn kikni í hnjánum við skyndilegt fjölmiðlafár. Þegar við þetta er svo bætt stóryrðum og ósmekklegum uppnefnum um þá, sem einfaldlega leyfa sér að fara eftir skýrum landsfundarsamþykktum, þá er frekjan komin í annað veldi. Þá er hún farin að nálgast það stig að megi fara að tala um „frekjupungapólitík“, svo notað sé ruddalegt orð sem ekki á heima í íslenskri stjórnmálaumræðu,“ segir Þorsteinn í greininni.