Georg Mikaelsson, eigandi Úranus, sakar Toyota umboðið um misbeitingu á valdi og ákveðið einelti. Fyrirtæki Georgs flytur inn Toyotabíla frá Þýskalandi og selur hér á landi.

Toyota umboðið á Íslandi sendi í júlí eigendum Toyota bíla sem ekki eru keyptir hjá umboðinu bréf, eins og Viðskiptablaðið greindi frá . Þar er bent á að aldur bílsins sé miðaður við skráningardag í Þýskalandi en ekki skráningardag á Íslandi. Þetta geti haft áhrif á endursöluverð. Þá er einnig bent á að umboðið selji Toyota með fimm ára ábyrgð. Hugsanlegt sé að umræddur bíll, sem var fluttur inn frá Þýskalandi, geti verið með einungis þriggja ára ábyrgð.

Í yfirlýsingu sem Georg sendi Viðskiptablaðinu segir að þeir sem kaupi bíla af Úranus séu meðvitaðir um að bílarnir séu nýskráðir í Þýskalandi en ekki á Íslandi. „Þarna er því um algjört gagnsæi fyrir kúnnann að ræða og enginn hætta á misskilningi um dagsetningar á ábyrgð ökutækis o.s.frv,“ segir í yfirlýsingunni. Þá sé það rangt að bílarnir sem Úranus selji séu ekki með fimm ára ábyrgð.

Georg segir að tilgangur bréfsins frá Toyota umboðinu til viðskiptavina Úranus, virðist vera tvíþættur. „Annars vegar  að vekja ótta hjá nýjum eigendum Toyota bifreiða um ábyrgð og réttarstöðu þeirra gagnvart umboðinu, ef þeir hafa verslað beint við Úranus og hins vegar að fæla nýja kaupendur frá því að versla við Úranus frekar en umboðið í framtíðinni, vegna óvissu um ábyrgð og réttarstöðu þeirra,“ segir Georg.

Georg segir að viðskiptavinir Úranus séu almennt vel upplýstir um sín mál eftir áralöng viðskipti. Því sé það með öllu óásættanlegt að Toyota umboðið skuli finna sig knúið að senda viðskiptavinum Úranus bréf og reyna hrella þá með slíkum rangfærslum og hræðsluáróðri. „Slíkt er auðvitað misbeiting á valdi og ákveðið einelti,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin frá Úranus í heild sinni:
Vegna áhugaverðrar umfjöllunar Viðskiptablaðsins, um bréf sem Toyota umboðið á Íslandi sendi frá sér til allra þeirra eigenda Toyota bifreiða ,sem ekki hafa verslað beint við umboðið er það undirrituðum sönn ánægja að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri og leiðrétta um leið þær rangfærslur sem koma fram í fyrrnefndu bréfi umboðsins.

Frétt Viðskiptablaðsins má sjá hér:
www.vidskiptabladid.is/frettir/94108/

Um Úranus:
Undirritaður á og rekur fyrirtækið Úranus sem var stofnað árið 1996.  Frá þeim tíma og fram til dagsins í dag hefur fyrirtækið flutt inn þúsundir bifreiða, bæði nýjar og notaðar, án nokkurra vandkvæða.  Viðskiptavinir Úranus eru því fjölmargir og hafa flestir þeirra átt ítrekuð viðskipti við fyrirtækið enda fyrirtækið alla tíð verið vel samkeppnishæft.

Ólíkt mörgum bílaumboðum líkt og Toyota hefur Úranus aldrei farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, né þurft á afskriftum skulda að halda gagnvart  lánastofnunum og starfar enn á upprunalegri kennitölu.

Bréfið frá Toyota umboðinu, sem fjallað var um í Viðskiptablaðinu, var beint að fjölmörgum eigendum/kaupendum Toyota bifreiða sem verslað hafa við Úranus. Úranus hefur oft getað boðið kaupendum Toyota  bifreiða mun hagstæðara verð á sumum tegundum en umboðið sjálft, með sambærilegum ábyrgðum.

Bréf/hræðsluáróður Toyota umboðsins:
Í bréfinu segir, skv. Viðskiptablaðinu:

1.
Í bréfinu er bent á að aldur bílsins sé miðaður við skráningardag í Þýskalandi en ekki skráningardag á Íslandi. Þetta geti haft áhrif á endursöluverð.

Rétt er að aldur bílsins er miðaður við skráningardag í Þýskalandi enda engu öðru haldið fram af hálfu Úranus og farið að lögum í þeim efnum.

Það er heldur ekkert nýtt að aldur bíla hafi áhrif á endursöluverð þeirra.

Toyota bílarnir sem Úranus flytur inn og selur nýja, verða lögum samkvæmt að vera nýskráðir fyrst í Þýskalandi áður en þeir koma til Íslands og það sést auðvitað á pappírum sem fylgja bílnum.  Umræddir bílar hjá Úranus eru flestir seldir fyrirfram og komnir á götuna á Íslandi eigi síðar en þremur mánuðum frá framleiðsludegi.

Þarna er því um algjört gagnsæi fyrir kúnnann að ræða og enginn hætta á misskilningi um dagsetningar á ábyrgð ökutækis o.s.frv.

Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um sumar þær Toyota bifreiðar sem umboðið sjálft selur sínum kúnnum.   Dæmi eru um að kaupendur Toyota bifreiða hjá umboðinu séu að kaupa “gamla” bíla án þess að hafa hugmynd um það. Þ.e.a.s. bíla sem eru framleiddir árinu áður (jafnvel fyrr) og hafa staðið á hafnarbakka einhvers staðar. En við sölu eru þeir nýskráðir sama hvenær þeir voru í raun framleiddir.  Slíkt gerist ekki hjá Úranus.  Það er í sjálfu sér ekkert ólöglegt við slíka viðskiptahætti en þarna skortir gagnsæi enda kúnninn sjaldnast látinn vita af slíku áður en viðskipti eiga sér stað.

Það væri því nær að Toyota umboðið sýndi eigin viðskiptavinum meiri virðingu og sendi þeim bréf um aldur bílanna sem þeir hafa verslað “því það geti haft áhrif á endursöluverð”.   Hjá Úranus liggur þetta ávallt fyrir þegar viðskipti eiga sér stað sem er til fyrirmyndar.

2.
Þá er einnig bent á að umboðið selji Toyota með fimm ára ábyrgð. Hugsanlegt sé að umræddur bíll, sem var fluttur inn frá Þýskalandi, geti verið með einungis þriggja ára ábyrgð.

Þarna fer Toyota umboðið vísvitandi með rangt mál.  Úranus veitir og tryggir sínum viðskiptavinum einnig fimm ára ábyrgð af þeim bílum sem keyptir eru hjá fyrirtækinu og þannig verður það auðvitað áfram.

Niðurlag:
Tilgangur bréfsins frá Toyota umboðinu til viðskiptavina Úranus, virðist vera tvíþættur.

Annars vegar  að vekja ótta hjá nýjum eigendum Toyota bifreiða um ábyrgð og réttarstöðu þeirra gagnvart umboðinu, ef þeir hafa verslað beint við Úranus og hins vegar að fæla nýja kaupendur frá því að versla við Úranus frekar en umboðið í framtíðinni, vegna óvissu um ábyrgð og réttarstöðu þeirra.

Allt slíkt hefur verið hrakið hér að ofan.Viðskiptavinir Úranus eru almennt vel upplýstir um sín mál eftir áralöng viðskipti. Því er það með öllu óásættanlegt að Toyota umboðið skuli finna sig knúið að senda viðskiptavinum Úranus bréf og reyna hrella þá með slíkum rangfærslum og hræðsluáróðri.  Slíkt er auðvitað misbeiting á valdi og ákveðið einelti.

Úranus mun veita öllum sínum viðskiptavinum sem telja sig hugsanlega beitta órétti af hálfu Toyota umboðsins aðstoð og er verið er skoða þessi mál með aðstoð lögmanna, m.a.  út frá lögum um eftirlit með viðskiptaháttum, markaðssetningu frá 2005  o.fl.

Það færi því betur á því að Toyota umboðið liti sér nær og færi í naflaskoðun.

Reyndi að finna út hvers vegna þeir geti ekki staðið sig í heilbrigðri samkeppni á markaði annars vegar og hins vegar að reyna axla þá ábyrgð sem fylgir því að þjónusta og reka umboð, fyrir allar Toyota bifreiðar á Íslandi með sómasamlegum hætti.

Ágætis  byrjun væri að senda sjálfum sér bréf og greina vandann.