Héraðsdómur úrskurðaði í dag að hinir ákærðu í máli ríkissaksóknara gegn Jóni Þorsteini Jónssyni, Ragnari Z. Guðjónssyni og Styrmi Þór Bragasyni skyldu fá upplýsingar innan úr Byr sparisjóði um sambankalán frá sumrinu 2008 og tilteknar upplýsingar úr lánabók sparisjóðsins.

Mbl.is greinir frá. Segir að saksóknari hafi afhent dómara gögnin til að meta hvert rétt væri að sakborningar fengju þau í hendurnar. Varð það niðurstaða dómara að þeir ættu rétt á því.

Að auki skipaði dómarinn saksóknara að afla frekari gagna og afhenda sakborningum. Upplýsingarnar úr lánabókinni snúa að fjármögnun á kaupum í stofnfjárbréfum í sparisjóðnum, að því er segir á mbl.is. Sakborningar fengu einnig í hendurnar fundargerðir og önnur gögn, sem þeir höfðu gert kröfu um að fá hafhent.

Málið snýst um hið svokallaða Exetermál, en Jón Þorsteinn var stjórnarformaður Byrs, Ragnar var sparisjóðsstjóri og Styrmir Þór var forstjóri MP banka þegar umdeild viðskipti fóru fram með stofnfjárbréf í Byr.