Anton Traustason, framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélaganna Cheap Jeep og Arctic Roadtrip var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.

Fram kemur í dóminum að ákærði hafi játað brot sín skýlaust en hann var sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti sem nam samtals um 17,8 milljónum króna fyrir fyrirtækin tvö. Hann stóð einnig ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna fyrirtækjanna, en sú upphæð nam alls um 14,5 milljónum króna.

Hann var dæmdur til að greiða sem nemur 63 milljón króna sekt í ríkissjóð auk átta mánaða skilorðsbundins fangelsis.