Eftirspurn eftir húðkreminu Sisley Extra-Rich Cream er slík að hin þekkta verslun Saks í New York hefur sett takmarkanir á það magn sem hver viðskiptavinur getur keypt. Sex krukkur af kreminu er það sem hver viðskiptavinur getur að hámarki keypt mánaðarlega.

Stofnandi Sisley er Hubert d´Ornano. Eignir hans eru metnar á 1,3 milljarði bandaríkjadala. Hann hefur verið í snyrtivöruiðnaði frá blautu barnsbeini en faðir hans var einn stofnenda Lancome snyrtivörumerkisins og seldi það til frönsku snyrtivörukeðjunnar L´Oreal árið 1964.

Síðustu 36 árin hafa D´Ornano og eiginkona hans stjórnað Sisley. Þannig hefur merkið vaxið frá því að vera ein verslun í París í að vera vörumerki sem selt er í níutíu löndum um allan heim.

D´Ornano er nú orðinn tæplega níræður og er fjallað um lífsferil hans á heimasíðu Forbes. Þar kemur fram að nú fyrst birtist d´Ornano á lista yfir auðugustu einstaklinga heims. Ástæðan er að vörur Sisley hafa undanfarið vaxið mikið í vinsældum í Asíu. Þær eru nú meðal annars mikið seldar í Kína, Suður Kóreu og Singapore. Þannig hafa tekjur snyrtivörurisans vaxið í 768,7 milljónir bandaríkjadala á síðasta ári.