Svissneskir saksóknarar íhuga nú að taka háttsemi stjórnar UBS bankans í kringum undirmálslánakrísuna til skoðunar. Enginn banki í Evrópu hefur tapað jafn miklu á viðskiptum með bandarísk undirmálslán og UBS og nú er kannað hvort stjórnendur UBS hafi e.t.v. afvegaleitt fjárfesta með ummælum sínum um undirmálslánamarkaðinn.

Reuters greinir frá þessu.

„Við höfum rætt við stjórnendur UBS, en þær viðræður voru á engan hátt yfirheyrsla,“ hefur Reuters eftir einum saksóknaranna í Zurich. „Efnahagsbrotadeild hefur fylgst grannt með þróun mála í tengslum við undirmálslánakrísuna frá því síðasta haust. Við erum nú að skoða opinberar upplýsingar.“

Fyrr í þessum mánuði veittu svissnesk stjórnvöld UBS fjármögnun upp á 6 milljarða svissneskra franka auk þess sem eitraðar eignir upp á 60 milljarða dala voru færðar í nýjan sjóð sem svissneski seðlabankinn stýrir.