Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, sagði í málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag, vegna kröfu Baldurs Guðlaugssonar um að rannsókn á hendur honum verði felld niður, að Baldur hefði verið staðinn að ósannindum.

Í skýrslutöku yfir Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, sem Björn vitnaði til í málflutningi, sagði hún að Baldur hefði setið fund með sér ásamt bankastjórum Landsbankans, Sigurjóni Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, 13. ágúst í fyrra.

Á fundinum lýstu þeir, „í algjörum trúnaði", eins og Björn komst að orði, því yfir að Landsbankinn gæti lent í vandræðum þar sem bankinn gæti ekki orðið við kröfum breska fjármálaeftirlitsins um færslu á Icesave-reikningum Landsbankans yfir í breskt dótturfélag.

Björn sagði síðan: „Þetta sýnir að Baldur sagði ósatt um að hann hefði aldrei átt samskipti við stjórnendur Landsbankans, og þá sýnir þetta einnig að hann bjó yfir upplýsingum um stöðu Landsbankans sem sýndi alvarlega stöðu hans á þessum tíma."

Sjá ítarlega umfjöllun í Viðskiptablaðinu um málflutning vegna kröfu Baldurs um að rannsókn á hendur honum verði felld niður.

_____________________________

Nánar er fjallað um málflutning vegna kröfu Baldurs um að rannsókn á hendur honum verði felld niður, í ítarlegri úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .