Embætti sérstaks saksóknara hefur yfirheyrt Baldur Guðlaugsson, fyrrum ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, vegna gruns um að hann hafi nýtt sér innherjaupplýsingar þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. september 2008, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Söluandvirði bréfanna var vel á annað hundrað milljónir króna. Rúmum tveimur vikum síðar féll bankinn.

Baldur er hæst setti embættismaður Íslendinga sem hefur verið til rannsóknar af ákæruvaldi vegna gruns um brot í starfi.

Sérstakur saksóknari krafðist kyrrsetningar í völdum eignum Baldurs í síðustu viku. Til þess þarf ekki heimild dómstóla heldur sendi embættið beiðni um kyrrsetningu til sýslumannsins í Reykjavík sem ber að framkvæma hana. Í kyrrsetningunni felst að Baldur getur ekki ráðstafað þeim eignum sem hún nær til með þeim hætti að það brjóti í bága við beiðni sérstaks saksóknara.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .