Dominique Strauss-Kahn þurfti að gangast undir ströng skilyrði til að losna úr fangelsi í fyrradag. Fyrrum fostjórinn lagði fram sem tryggingu eina milljón dala í reiðufé auk skuldabréfs að andvirði fimm milljón dala.

Jafnframt gekkst hann við afar ströngu eftirliti, sólarhringsgæslu, vöktun með myndavélum og öklaband sem í er innbyggt staðsetningartæki.

Saksóknarinn í New York kannar vísbendingar um fleiri afbrot Strauss-Kahn. Lögregla hefur rætt við fleiri konur sem kunna að hafa átt samneyti við hann.

Mikil umræða hefur verið í bandarískum fjölmiðlum undanfarna sólarhringa um mál Strauss-Kahn.  Í gærkvöldi ræddu Eliot Spitzer fyrrum ríkisstjóri og saksóknari í New York og Mark Geragos lögmaður um málið á CNN.  Fóru þeir nokkuð nákvæmlega yfir málavexti  en þeir eru sammála um að möguleg lífsýni geti haft mikil áhrif á niðurstöðuna í sakamálinu.

Spitzer, sem nú er þáttastjórnandi á CNN, þurfti að segja af sér embætti ríkisstjóra árið 2008 eftir að hafa greitt 22 ára konu fyrir kynlífsþjónustu.

Hér má sjá upptökuna í heild.