Í gæsluvarðahaldskröfu yfir Sigurjóni Þ Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, er meintum brotum hans lýst. Meðal annars er um að ræða skipulagða og kerfisbundna markaðsmisnotkun á árunum 2003 til 2008 sem hafi verið til þess fallin að skekkja verðmyndun á hlutabréfum Landsbankans. Stöð 2 sagði frá gæsluvarðhaldskröfunni, sem fréttastofan hefur undir höndum.

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að rannsóknin beinist meðal annars að lánum til fjögurra félaga. Í fyrsta lagi er um að ræða 1,6 milljarða króna lán hinn sem Landsbankinn veitti félaginu Hunslow, sem var í eigu Stefáns Ingimars Bjarnasonar, hinn 18. september 2008 til að kaupa hlutabréf bankans. Eigið fé var aldrei reitt fram af hálfu Hunslow og öll áhætta hjá Landsbankanum,.  Grunur leikur á að um umboðssvik hafi verið að ræða. Eigandi félagsins átti annað félag sem hafði brotið kvaðir í lánasamningum við Landsbankann en samt var ákveðið var að lána Hunslow meira, þrátt fyrir að margt hafi mælt því í mót.

Annað félag heitir Bruce Assets og var í eigu bræðranna Ólafs Steins og Kristjáns S. Guðmundssona. Það fékk 4,3 milljarða króna lán hjá Landsbankanum í Lúxemborg hinn 31. mars 2008 til að kaupa hlutabréf bankans. Bankinn gekkst í ábyrgð vegna lána til félagsins og ekkert eigið fé var lagt fram samkvæmt frétt Stöðvar 2. Þá voru ákvæði lánasamninga sem gátu varið hagsmuni bankans ekki virkjuð og lánið var framlengt þrátt fyrir að staða veða væri komin langt undir leyfileg mörk. Sérstakur saksóknari telur þetta umboðssvik.

Þriðja málið sem er til skoðunar er lán Landsbankans í Lúxemborg til félagsins Pro-Invest sem var í eigu búlgarska kaupsýslumannsins Georg Tzvetanski.  Um er að ræða 4,5 milljarða króna yfirdráttarlán veitt 30. september 2008, daginn eftir kynningu á áformum um þjóðnýtingu Glitnis í Seðlabankanum. Lánið var notað til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum af bankanum sjálfum. Ekki er vitað hver var upphaflega á hinum enda viðskiptanna samkvæmt frétt Stöðvar 2.

Fjórða félagið er félag sem var í eigu Sigurðar Bollasonar og kennt er við hann. Gengið var frá lánasamningi til félagsins upp á fjóra milljarða króna hinn 28. júlí 2008 vegna viðskipta með bréf Landsbankans sumarið 2008 upp á 3,2 milljarða króna. Ekki var lögð fram króna í eigið fé af hálfu Sigurðar samkvæmt fréttum Stöðvar 2 þrátt fyrir að hann hafi átt, samkvæmt samkomulagi að leggja fram 20 prósenta eiginfjárframlag. Saksóknari lítur á lánið til Sigurðar sem umboðssvik.