Húsleit hefur verið framkvæmd á tveimur stöðum í dag á vegum embættis sérstaks saksóknara. Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, var í báðum tilvikum verið að rannsaka staði þar sem gögn voru geymd rafrænt. Ólafur staðfesti að annars þessara staða væri lögmannastofan Logos í Efstaleiti.

Eftir því sem komist verður næst var lagt hald á tölvupósta og önnur rafræn skjöl.

Alls hefur embættið nú rannsakað 14 staði þar af 12 vegna rannsóknar sinnar á kaupum Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþing banka í september síðastliðnum.

Meðal þeirra staða sem hafa verið skoðaðir eru heimili og sumabústaður Ólafs Ólafssonar, heimili Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar, höfuðstöðvar Kjalars fjárfestingafélags Ólafs og skrifstofur Samskipa.