Björn Þorvaldsson saksóknari krafðist þess við upphaf réttarhalds yfir níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings að dómari hafnaði ósk Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, um að Gestur Jónsson yrði skipaður verjandi hans í málinu. Dómari hafnaði kröfunni, en saksóknari ætlar að kæra þá niðurstöðu til Hæstaréttar, að því er segir í frétt mbl.is .

Gestur hætti með eftirminnilegum hætti sem verjandi Sigurðar í hinu svokallaða Al-Thani máli fyrr í mánuðinum og í kjölfarið hefur aðalmeðferð í því máli verið frestað. Björn sagði að í þessu máli, sem snýst um markaðsmisnotkun fyrrverandi starfsmanna Kaupþings, ættu við öll sömu rök og ættu við í Al Thani málinu. „Að Gestur skuli vera mættur hér er óskiljanlegt,“ sagði Björn og bætti við að það væri tifandi tímasprengja ef Gesti yrði heimilað að verja Sigurð í þessu máli.

Gestur mótmælti þessu og sagðist uppfylla öll skilyrði laga og virða ætti óska Sigurðar um að hann yrði verjandi hans í þessu máli. Hér væri saksóknari að ráðast á einstaklinga í stað þess að láta efnisatriði ráða.