Meðal þess sem Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, og Karl Axelsson hrl., lögmaður Baldurs Guðlaugssonar, tókust á um í dómsal 15. desember í fyrra var vitnisburður Bolla Þórs Bollasonar, þáverandi ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu og formanns samráðshóps um fjármálstöðugleika.

Viðskiptablaðið greindi frá málflutningnum sem fór fram vegna kröfu Baldurs um að rannsókn á málinu skyldi felld niður. Því var að lokum hafnað í héraði og Hæstarétti.

Eins og greint var frá í gær hefur Baldur nú verið ákærður fyrir að hafa selt hlutabréf í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna á grundvelli innherjaupplýsinga 18. og 19. september 2008, eða um þremur vikum fyrir hrun Landsbankans. Er Baldur einnig ákærður fyrir brot í opinberu starfi en ákærandi í málinu er sérstakur ríkissaksóknari, Björn L. Bergsson. Málið var þó rannsakað að mestu hjá embætti sérstaks saksóknara.

Þingfesting er í málinu 22. október nk. klukkan 09:30 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Bolli Þór, sem var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde, var formaður samráðshóps um fjármálastöðugleika þar sem Baldur átti einnig sæti ásamt fleirum. Hann hefur verið yfirheyrður af sérstökum saksóknara vegna málsins og vitnaði Björn til skýrslu sem hann gaf í málflutningi sínum 15. desember.

Baldur hafði í bréfi til FME nefnt að hann hefði hringt í Bolla Þór degi áður en hann seldi hlutabréfin og tilkynnt honum um að hann ætlaði að selja bréf sín. Þetta hefði hann gert þar sem Bolli Þór var formaður hópsins. Björn sagði Bolla Þór hafa neitað þessu við skýrslutöku og sagt Baldur hafa hringt í sig eftir að hann seldi bréfin. „Bolli Þór svaraði því til að þetta hefði verið óheppilegt, hann hefði viljað fá upplýsingar um þetta áður en viðskiptin áttu sér stað,“ sagði Björn.

Karl Axelsson gerði lítið úr þessu í málflutningi sínum. „Þó að Baldur og Bolla greini á um þessi atriði þá breytir það engu um efnisatriði málsins.“ Björn svaraði því til að Baldur sjálfur hefði talið fyrrnefnd samskipti við Bolla Þór skipta máli og styrkja sinn málstað. „Vitnisburður Bolla Þórs segir aðra sögu.“

Björn sagði síðan að Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, hefði verið spurður að því hvort hann teldi að þeir sem setið hefðu í samráðshópi um fjármálastöðugleika hefðu einhvern tíma búið yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans í vinnu sinni. Björn sagði Tryggva hafa svarað afdráttarlaust: „Alltaf,“ og vitnaði þar til starfstíma samráðshópsins frá byrjun árs 2008.

Karl sagði það vera athyglisvert að hagfræðingar hafi verið spurðir álits á því að hvort lög um innherjaviðskipti hafi átt við þegar vinna samráðshóps um fjármálastöðugleika stóð yfir. „Lögfræðingarnir Jónas Fr. [Jónsson] og Jónína [S. Lárusdóttir] voru ekki tilbúin að segja til um hvort lög um innherjaviðskipti ættu við. Það skýrist auðvitað af því að það er ekki augljóst hverju sinni hvaða upplýsingar geta leitt til þess að lög um innherja séu brotin. Það er lögfræðilegt úrlausnarefni,“ sagði Karl í málflutningi sínum.

Hæstiréttur hefur aldrei dæmt í máli þar sem ákært er vegna innhverjasvika. Einu sinni hefur maður verið ákærður fyrir slíkt brot. Það var Gunnar Scheving Thorsteinsson árið 2001 vegna viðskipta með hlutabréf í Skeljungi. Hann var sýknaður í héraði og var málinu ekki áfrýjað til Hæstaréttar.