Alberto Nisman, saksóknari í Argentínu, hefur fundist látinn á heimili sínu, en í síðustu viku sakaði hann forseta landsins um yfirhylmingu í tuttugu ára gömlu sprengjuárásarmáli. BBC News greinir frá málinu.

Saksóknarinn hafði til rannsóknar sprengjuárás á samfélag gyðinga í Buenos Aires sem átti sér stað árið 1994, en 85 manns dóu í árásinni.

Síðasta miðvikudag sakaði hann Cristinu Fernandez, forseta landsins, um að hafa hylmt yfir staðreyndir í málinu til þess að hlífa aðkomu Írana að því. Talsmaður forsetans sagði hins vegar í kjölfarið að ásakanirnar væru fáránlegar.

Nú hafa fjölmiðlar í Argentínu hins vegar greint frá því að Nisman hafi fundist af móður sinni þar sem hann lá látinn á baðherbergisgólfi heimilis síns.

Stjórnvöld þar ytra hafa hins vegar ráðið fólki frá því að hrapa að ályktunum. „Ég bið ykkur um að vera varfærin og bíða eftir skýrslu stjórnvalda um málið. Á næstu dögum munum við komast að dánarorsök,“ sagði Viviana Fein, annar saksóknari þar í landi, við fjölmiðla. Hún sagði jafnframt að vopn hefði fundist á vettvangi.