Bandaríkjadalur mun veikjast nú þegar seðlabankar í Asíu eru í auknum mæli farnir að nota hinn gríðarmikla gjaldeyrisforða sinn til að fjárfesta í öðru en Bandaríkjadal. Þetta hefur Bloomberg-fréttaveitan eftir Gabriel de Knock, aðalgjaldeyrishagfræðingi Citigroup Global Markets.

Kína, sem er næststærsti handhafi bandarískra ríkisskuldabréfa á eftir Japan, seldi slík skuldabréf í apríl, maí og júní samhliða áformum stjórnvalda að koma á fót sérstökum ríkisfjárfestingasjóði (e. foreign wealth-fund), í því augnamiði að fá hærri ávöxtun á þeim 1,3 billjónum Bandaríkjadala sem Kínverjar eiga í gjaldeyrisforða. Seðlabankar í Japan, Taívan og Suður-Kóreu hafa einnig uppi áform um að beina hluta gjaldeyrisforða síns í áhættusamari fjárfestingar en bandarísk ríkisskuldabréf.

Til lengri tíma litið mun slík þróun á meðal seðlabanka í heiminum - einkum hjá nýmarkaðsríkjum í Asíu - gera það að verkum að Bandaríkjadalur mun líkast til veikjast, segir de Knock. Áætlað hefur verið að seðlabankar í Asíu ráði yfir um 40% af öllum gjaldeyrisforða heimsins.

Bandaríkjadalur lækkaði níunda daginn í röð gagnvart evrunni á mánudaginn og hefur jafnframt fallið gagnvart níu af tíu helstu gjaldmiðlum Asíu - að jeninu undanskildu - það sem af er þessu ári.