Bjórsala hefur minnkað gríðarlega í kjölfar reykingabanns á Bretlandseyjum. Að sögn veitingamanna hafa þeir selt 175 milljón færri glös af bjór. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu á heimasíðu sinni. Bjórsala var sérstaklega slæm yfir vetrartímann en hún minnkaði um níu af hundraði, frá nóvember til janúar, miðað við sama tímabil í fyrra. Reykingabannið lék léttvínssölu ekki eins grátt. Sala á léttvíni féll engu að síður um fjögur prósent. Sala á sígarettum hefur fallið um sex af hundraði frá því 1. júlí 2007 og hafa tveir milljarðar færri sígarettupakkar verið seldir frá 1.júlí 2007 til apríl 2008, miðað við í fyrra.