Kjartan Magnússon, stjórnaformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir aðspurður að engar ákvarðanir um sölu Gagnaveitu Reykjavíkur verði teknar án samráðs við samstarfsmenn sjálfstæðismanna í borginni, þ.e. Frjálslyndir og óháðir. Sala í GR verði þó skoðuð innan tíðar.

„Við [Kjartan og Júlíus Vífill Ingvarsson] lögðum fram tillögu á sínum tíma um að söluferlinu yrði haldið áfram. Sú tillaga var felld. Það þarf því sérstaka ákvörðun til að taka málið upp að nýju,“ segir Kjartan og ítrekar að málið verði skoðað innan skamms.

Sjálfstæðismenn studdu sölu á GR þegar þeir voru í minnihluta og m.a. létu Kjartan og Júlíus Vífill bóka á fundi OR fyrir áramót, þegar þáverandi meirihluti ákvað að ekki yrði leitað tilboða í GR á frjálsum markaði, að þeir teldu GR í óeðlilegri samkeppni við önnur fjarskiptafyrirtæki og skynsamlegt væri að selja það úr opinberri eigu.

Eins og Viðskiptablaði greindi frá á föstudag hefur Síminn sent Póst- og fjarskiptastofnun erindi þar sem þess er krafist að GR skili ársreikningum í samræmi við hlutafélagalög. Kjartan segist skilja þau sjónarmið sem liggja til grundvallar þeirri ákvörðun Gagnaveitu Reykjavíkur að birta ekki opinberlega ársreikningaskrá sína. Sjónarmiðin helgist af því að um sé að ræða fyrirtæki í viðkvæmum rekstri.

Inntur eftir því hvort til standi að gera breytingar á því, segist hann ekki útiloka neitt. „Við munum fara yfir þetta.“