Sala á 400 milljóna punda (35 milljarða króna) sambankaláni Bank of Scotland og Glitnis, sem styður við yfirtöku Baugs og annarra fjárfesta á bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser (HoF) hefur gengið hægt, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins á sambankalánamarkaði í London. Baugur tekur við lyklunum af HoF í dag og hefur sala lánsins engin áhrif á kaup Baugs á félaginu.

Bank og Scotland og Glitnir sölutryggðu sambankalánið og hófu sölu á hluta þess til annarra banka í september. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að móttökurnar hafi ekki verið sérstaklega góðar enn sem komið er, þrátt fyrir mikinn fjölda bankamanna á fjárfestakynningu.

Ástæðan fyrir því að fleiri bankar hafa ekki keypt sneiðar af láninu eru þær ekki var búið að ganga frá ráðningu forstjóra og að upplýsingar um áhrif jólaverslunar á afkomu félagins séu ekki nægjanlegar. Tilkynnt verður um ráðningu John King, fyrrverandi forstjóra Matalan-verslunkarkeðjunnar, í dag.

Steinunn Þórðardóttir, sem stýrir starfsemi Glitnis í London, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að hún væri sátt við móttökurnar og að nú þegar hefðu bankar ákveðið að taka þátt í láninu. Hún benti á að það væri eðlilegt að fjárfestar tækju sér tíma til að fara yfir upplýsingar um HoF og að þeir hinkri eftir upplýsingum um jólaverslun.

Steinunn sagði sölu lánsins í tveimur hlutum og að fleiri bönkum verði boðið lánið í byrjun næsta árs, en bætti við að auk þeirra banka sem nú þegar hafa tekið þátt í láninu hafa nokkrir bankar ákveðið að taka þátt í fjármögnunni með fyrirvara um að jólaverslunin verði ekki undir væntingum.

Sérfræðingar á sambankalánamarkaði segja að líklegt sé að sala lánsins klárist þegar nægar upplýsingar um afkomu félagins á árinu liggja fyrir og að nýr forstjóri hafi verið ráðinn. King tekur við HoF í desember.