Frekari tafir urðu á gildistöku nýs endurgreiðslukerfis lyfja og nýrrar lyfjaverðskrár í Búlgaríu sem leiddi til hægari vaxtar Actavis þar í landi en gert var ráð fyrir. Sala Actavis í Búlgaríu var því undir væntingum. Samþykki nýrrar lyfjaverðskrár er á lokastigi en ekki er þó búist við að hún verði tekin í gagnið fyrr en í byrjun árs 2005. Þar sem útgáfa á nýrri lyfjaverðskrá er margbrotin er ekki hægt að tímasetja gildistöku þess nákvæmlega segir í tilkynningu félagsins.

Rússlandsmarkaður heldur hins vegar áfram að eflast og sala hefur haldist jöfn á þriðja ársfjórðungi og verið í samræmi við væntingar. Sala í fyrrum Sovétlýðveldum jókst vegna verðhækkana á lykilvörum á ársfjórðungnum, sem gerðist samhliða auknu kynningarstarfi og styrkingu dreifileiða.

Dótturfélag Actavis í Serbíu er stöðugt að sækja í sig veðrið og sala á þriðja
ársfjórðungi er í samræmi við væntingar. Zdravlje jók markaðshlutdeild sína á heimamarkaði á þriðja ársfjórðungi. Ný lög voru sett í júlí á þessu ári þar sem leyfð var allt að 9% verðhækkun á nokkrum af okkar vörum. Þessi lög munu taka gildi í janúar 2005.