Neysla á dagvöru og áfengi þokast upp á við í ágúst í nýjustu mælingu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Neysla á dagvöru hefur verið nokkuð stöðug síðastliðin 3 til 4 ár og gegnir svipuðu máli um áfengisverslun. Á sama tíma á sérverslun í vök að verjast.

Þar kemur fram að velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á föstu verðlagi í mánuðinum á milli ára og um 8,9% á breytilegu verðlagi. Verð á dagvöru hækkaði um 4,4% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Þá kemur frma í upplýsingum Rannsóknarsetursins, að sala á áfengi jókst um 23,1% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 28,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam aukning í veltu áfengis í ágúst 8,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 4,4% hærra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Á móti dróst fataverslun saman um 2,5% í ágúst og skóverslun dróst saman um 7,7% á sama tíma á föstu verðlagi. Svipuðu máli gegndi um veltu í húsgagnaverslun, sem dróst saman um 7,1% á milli ára í ágúst.

Sala á raftækjum í ágúst jókst um 5,8% á föstu verðlagi frá fyrra ári og um 6,3% á breytilegu verðlagi. Verð á raftækjum var 0,5% hærra en í ágúst 2011.