Kaupum fjárfestingafélaganna Goode Partners og Lion Capital á All Saints tískukeðjunni er nærri lokið, að því er Financial Times greinir frá. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að allt stefni í að samkomulag náist. Hann bendir þó á að ferlinu sé aldrei lokið fyrr en búið er að skrifa undir.

Í frétt FT er talað um 102 milljóna punda björgunarpakka sem íslenskir eigendur All Saints hafa samþykkt. Skilanefndir kaupþing og Glitnis eru stærstu hluthafar All Saints.Þá mun Kevin Stanford, stofnandi tískukeðjunnar, eiga hlut í félaginu eftir að nýir eigendur koma að rekstrinum.

Sameiginlegt tilboð fjárfestingafélaganna hljóðar upp á 20 milljóna punda greiðslu til Kaupþings og Glitnis, sem eignuðust félagið eftir fall Baugs. Upphæðin jafngildir skuldum All Saints hjá íslensku bönkunum. Aðrar 82 milljónir verða síðan notaðar til þess að greiða niður aðrar skuldir og endurreisa rekstur. Virði hlutafjár All Saints er talið verðlaust.

Viðunandi tilboð

Árni Tómasson segir tilboðið viðunandi fyrir Glitni, en það gerir ráð fyrir að All Saints greiði upp skuldir við bankann. Hann segir að allt stefni í að samningar náist, en unnið hefur verið sölunni á síðustu vikum og mánuðum.

Samkvæmt heimildum FT hafa allir aðilar náð samkomulagi. Pappírsvinna er þó eftir og talið er ólíklegt að gengið verði frá kaupunum fyrir næstu helgi.

Leitað í marga mánuði

All Saints hefur leitað eftir nýju hlutafé á síðustu mánuðum. Ef nýir aðilar koma ekki að rekstrinum blasir við gjaldþrot. Nettó skuldir félagsins eru um 53 milljónir punda, en starfsmenn þess eru um 2000 talsins.

Í frétt FT segir að fjárfestingafélagið Lion Capital hafi komið að borðinu á síðustu stundu, þar sem Goode Partners var fyrir. Lion Capital hefur meðal annars fjárfest í tískuverslununum American Apparel og La Senza.