Sala á nýjustu vöru Apple, snjallúrinu Apple Watch, hefur dregist saman um 90% síðan á fyrstu viku í sölu. Nú seljast færri en 20 þúsund úr á dag í Bandaríkjunum og á sumum dögum seljast færri en 10 þúsund úr. Þessu greinir Market Watch frá.

Þetta er gríðarleg lækkun frá því í vikunni sem úrið var kynnt en þá seldust 1,5 milljón úra eða uþb 200 þúsund úr á dag. Auk þess hafa tvö þriðju úranna verið ódýrara gerðin Sport sem kostar frá 349 dollurum, í stað dýrari útgáfunnar sem kostar frá 549 dollurum. Einungis hafa selst 2000 eintök af lúxus útgáfunni Edition sem kostar yfir 10 þúsund dollara, eða sem nemur 1,3 milljónum íslenskra króna. Þessar tölur koma frá Slice en hingað til hefur Apple neitað að birta sölutölur.

Eðlilegt er að sala dragist saman eftir mikla sölu í upphafi kynningar á nýrri vöru. Hins vegar óttast sérfræðingar að þar sem Apple Watch er fyrsta alveg nýja vara sem Apple kynnir eftir að Steve Jobs féll frá boði það ekki góðu ef salan nær sér ekki. Velgengni úrsins gæti gefið til kynna hversu vel Apple mun takast að þróa nýjar vörur í framtíðinni án Jobs.

Spáð er að snjallúrinu eigi svo að fylgja snjallgleraugu og fleira og því sé mikilvægt að góður markaður verði til staðar. Það er ef til vill of snemmt að meta velgengni Apple Watch en hins vegar hafa fjárfestar ástæðu til að vera varkárir.