Í pistli á heimasíðu Viðreisnar, skrifar formaður flokksins og fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson um nýbirt drög að eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

Segir hann hana í stuttu máli ganga út á að ríkið selji allan sinn hlut í bönkunum fjórum sem ríkið á í, nema að hann haldi eftir 34-40% hlut í Landsbankanum, en einnig segir hann það í lagi að söluferlið taki tíu ár.

Metur verðmæti í bönkunum á 400 milljónir

„Mér heyrðist í stjórnarmyndunarviðræðum í haust að um þetta væri góð samstaða, en afar mikilvægt er að rasa ekki um ráð fram og gefa sér góðan tíma til þess að vinna að sölunni þannig að um hana ríki sem best sátt og ríkið fái gott verð fyrir sinn hlut," skrifar Benedikt sem leggur jafnframt áherslu á að hún verði í opnu ferli.

„Verðmætin eru mikil, nálægt 400 milljörðum króna líklega, og því eftir miklu að slægjast til þess að lækka skuldir ríkisins um slíka fjárhæð.

25-30 milljarða vaxtalækkun

Vextirnir sem ríkið borgar (með verðbótum þar sem það á við) eru nálægt 7% þannig að vaxtalækkunin gæti orðið 25 til 30 milljarðar á ári miðað við núverandi vaxtastig."

Finnst honum koma til greina að selja hlutina í áföngum og í raun detti honum ekki í hug að setja hlutina alla á markað núna strax.

Hlutur í Arion banka líklega seldur fyrst

„Ríkið á 13% hlut í Arion banka og ég get ímyndað mér að hann verði seldur fyrst, en slitabúið hefur sagst ætla að hefja ferlið nú um páskana," skrifar Benedikt og vísar þá í söluferli og skráningu Arion banka á markað.

„Þegar hlutabréf í bankanum verða skráð á markað verður auðveldara en ella að átta sig á verði og eftirspurn. Hugsanlegt er að þessi hlutur verði seldur á yfirstandandi ári, en alls ekki víst.

Ég sé ekki að markaður verði fyrir fleiri bankahlutabréf hér innanlands í ár þannig að hinir bankarnir bíða."

Halda eftir minnihluta í Landsbankanum

Stefnan er því að á næstu tíu árum eða svo verði meirihluti 98,2% eignarhluta Landsbankans seldur þannig að einungis 34-40% eignarhlutur standi eftir, auk þess að bankinn verði skráður á hlutabréfamarkað.

100% eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur, auk 13% eignarhlutur þess í Arion banka sem líklega verði seldur fyrstur eins og áður segir, jafnvel á yfirstandandi ári.

Veð í Arion banka sem þarf að greiðast innan árs

Kaupþing, eigandi meirihlutans í Arion banka stefnir að skráningu félagsins á markað, en ríkissjóður á um 84 milljarða skuldabréf á Kaupþing með veði í 87% hluta Kaupþings í bankanum.

„Verði skuldabréfið ekki greitt lok janúar 2018 færist Arion banki að öllu leyti til ríkisins. Einnig er í gildi ábataskiptasamningum sem felur í sér greiðslur til ríkissjóðs seljist Arion banki á tilteknu verði," segir í frétt fjármálaráðuneytisins.

49,5% eignarhlutur ríkisins í Sparisjóði Austurlands verði jafnframt seldur um leið og hægt sé.