Sala á nýjum bílum í febrúar dróst saman um 13,7% en nýskráðir  fólksbílar á þessu tímabili voru 1159 stk. á móti 1343 stk. í sama mánuði árið 2017 eða samdráttur um 184 bíla að því er kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Ef janúar og febrúar eru báðir skoðaðir þá er aukning upp á 8% frá fyrra ári en janúar var stór mánuður í nýskráningum fólksbíla. Samtals hafa verið nýskráðir 2782 fólksbílar það sem af er ári miðað við síðustu mánaðarmót.

Einstaklingsmarkaðurinn hefur tekið vel við sér á þessum fyrstu tveim mánuðum ársins með liðlega 70% af nýskráningum fólksbíla. Hlutfall bílaleigubíla af nýskráningum er liðlega 28% á sama tíma.

Mest var skráð af Mitsubishi Outlander og Toyota Land Cruiser  eða 183 stk. hvor tegund fyrir sig, í öðru sæti eru það Toyota Yaris og Hyundai I20 með 102 bíla hvor tegund fyrir sig. Í þriðja sæti er það svo Kia Sportage með 101 stk. segir í frétt frá Bílgreinasambandinu