„Okkur hefur fundist umræðan um bílasölu verið heldur neikvæð og mikið rætt um að hún sé að dragast saman. En raunin er að einstaklingar keyptu í fyrra nánast jafn mikið af nýjum bílum í fyrra og árið 2012,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri bílasviðs hjá Bílabúð Benna.

Hann hefur tekið saman upplýsingar frá Umferðastofu og Bílagreinasambandinu um nýskráningar á bílum og því hvernig hafi keypt nýja bíla upp á síðkastið. Samkvæmt tölunum voru 7.267 nýir bílar seldir í fyrra samanborið við 7.896 árið 2012 en það jafngildir um 8% samdrætti á milli ára. Af þeim bílum sem seldir voru í fyrra keyptu einstaklingar 4.283 bíla samanborið við 4.311 árið 2012. Það er rétt um 0,6% samdráttur á milli ára, samkvæmt þeim upplýsingum sem Björn hefur fengið. Samdrátturinn skýrist einkum af því að bílaleigur keyptu færri bíla í fyrra en ári fyrr.

Samkvæmt upplýsingum Bílgreinasambandsins og Umferðastofu keyptu bílaleigur 2.984 bíla í fyrra samanborið við 3.585 árið 2012. Samdráttur nemur 16%.