Á sama tíma og þýski bílarisinn Mercedes-Benz kom vel undan síðasta ári þá verður það sama ekki sagt um sænska keppinautinn Volvo. Sala á bílum undir merkjum Volvo dróst saman um 6,1% á milli ára í fyrra. Fyrirtækið seldi 421.951 bíl sem var 27.300 bílum minna en árið 2011. Samdrátturinn er nokkuð víða en sem dæmi seldust 10,9% færri bílar undir merkjum Volvo í Kína í fyrra en árið 2011. Þá virðist sem Svíar hafi ekkert frekar keypt sér Volvo en bíla frá öðrum löndum því fyrirtækið horfði upp á 11,3% samdrátt heima fyrir.

Erlendir fréttamiðlar hafa upp úr afkomutilkynningu Volvo að skuldakreppan á evrusvæðinu hafi haft neikvæð áhrif á sölu nýrra bíla auk þess sem samkeppnin í bílasölu hafi verið hörð. Þá megi búast við því að nýbyrjað ár verði Volvo erfitt.

Stjórnendur og eigendur Volvo vonuðust eftir því að salan myndi glæðast í Kína en fjárfestahópurinn Geely keypti rekstur Volvo af bandaríska bílarisanum Ford fyrir 1,8 milljarða dala, jafnvirði rúmra 230 milljarða íslenskra króna, árið 2010.