Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells, segir að áfengis- og vörugjald á bjór nemi um 70% af söluverði frá fyrirtækinu og því sé bjórsala fyrst og fremst umsýsla með opinbert fé.

Þetta er meðal þess sem Árni segir í nýlegu tímariti Samtaka atvinnulífsins. Hann segir að frá árinu 2009 hafi álögur ríkisins á vörur Vífilfells aukist verulega og það sé miklum takmörkunum háð hvernig megi kynna íslenskan bjór sem hafi leitt til aukningar á sölu erlends bjórs.

Árni segir að starfsumhverfið gæti verið miklu betra og jákvæðara fyrir fyrirtæki sem vilji efla reksturinn, skapa meiri verðmæti og búa til fleiri störf. Hann gagnrýnir jafnframt þingmenn fyrir að hækka gjöld á atvinnulífið eða breyta leikreglum með litlum eða nánast engum fyrirvara.

„Það er ámælisvert hversu lítinn tíma fyrirtæki hafa til að bregðast við nýjum eða hækkuðum ríkisálögum þar sem að skattafrumvörp koma ekki fram fyrr en í nóvember og eru afgreidd um miðjan desember. Fyrirtækin eru þá fyrir allnokkru síðan búin að vinna fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár og marka stefnu um verðlagningu og fleiri þætti. Óvissan sem fylgir þessu er mjög skaðleg."