*

sunnudagur, 20. september 2020
Erlent 15. júlí 2020 15:05

Um 45% samdráttur á fyrsta fjórðungi

Breska hátískufyrirtækið spáir 20% minni smásölu og 40-50% minni tekjum frá heildsölu á öðrum ársfjórðungi samanborið við síðasta ár.

Ritstjórn

Breska hátískufyrirtækið Burberry hefur varað fyrir áframhaldandi falli í sölu. Fyrirtækið áætlar ráðast í allt að 500 uppsagnir vegna minni umsvifa í heimsfaraldrinum.

Smásala nam 257 milljónum punda á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsársins, sem lauk 27. júní, sem er 45% fall frá fyrra ári. Ef einungis er horft til júnímánaðar dróst smásala saman um 20% samanborið við sama mánuð á síðasta ári. 

Fyrirtækið spáir því að smásala á öðrum ársfjórðungi verði allt að 20% lægri heldur en á sama tímabili í fyrra. Jafnframt spáir það 40-50% falli í tekjum af heildsölu sem samanstendur meðal annars af sölu til stórverslana.  

Sjá einnig: Sala Burberry í Asíu nær sér á ný

Julie Brown, fjármálastjóri Burberry, segir að fyrirtækið vonist til að spara 55 milljónir punda árlega í gegnum uppsagnir sem bætast ofan á aðrar 140 milljóna punda niðurskurðaraðgerðir. Hún tók fram að aðgerðirnar fælust ekki í breytingum á smásölu og framleiðslustarfsemi fyrirtækisins heldur í hagræðingu á skrifstofum þess. 

Hlutabréf Burberry hafa fallið um meira en 5% í dag eftir tilkynninguna. Gengi bréfanna hefur lækkað um tæp 33% á árinu. 

Stikkorð: Burberry