Breska hátískufyrirtækið Burberry segir að sala í Kína og Suður Kóreu hafi aukist verulega að undanförnu eftir mikinn slaka í upphafi árs en tískuiðnaðurinn hefur átt í högg að sækja eftir að heimsfaraldurinn skall á. Financial Times greinir frá.

Sala á núverandi rekstrarári, sem hófst þann 29. mars, er hærri í báðum löndum en á sama tíma í fyrra og heldur áfram að aukast, samkvæmt tilkynningu félagsins samhliða ársuppgjöri þess.

Kína og Suður-Kórea voru á meðal fyrstu þjóða sem horfðu fram á fækkandi smit en báðar þjóðir eru lykilmarkaðir fyrir Burberry. Hin aukna sala undanfarið kom að stórum hluta úr netverslun tískurisans.

„Það mun taka fyrirtækið tíma að jafna sig af faraldrinum en sterkur bati í ákveðnum hluta Asíu hughreystir okkur og við erum vel tilbúin til komast hjá þessum erfiðu tímum,“ sagði Marco Gobbetti, forstjóri Burberry, í tilkynningu tískurisans.

Í ársuppgjöri hátískufyrirtækisins í dag kom fram að virði birgða hafi lækkað um 68 milljónir punda eða um 11,9 milljarða íslenskra króna og verða þær líklega seldar á afslætti. Bókfært virði verslana Burberry lækkaði einnig um 157 milljónir punda.

Sala síðasta rekstrarárs nam 2,63 milljörðum punda sem er um 3% lækkun frá fyrra ári. Fyrirtækið greiddi ekki út arð á liðnu fjárhagsári en hlutabréfaverð þess hefur lækkað um 35% frá upphafi árs.