Smásöluvelta dagvara að teknu tilliti til verðlagsbreytinga var um 3,1% meiri í janúar sl. en í sama mánuði árið 2004 samkvæmt nýrri smásöluvísitölu RSV-SVÞ. Áfengissmásalan á föstu verðlagi reyndist 1,8% minni en á sama tímabili og sala lyfjaverslana stóð í stað miðað við desember í fyrra. Verðhækkanir skv. Hagstofu Íslands í nóvember sl. miðað við sama mánuð á fyrra ári reyndust 2,1% í dagvörum, 1,0% í áfengi og 2,1% í lyfjasmásölu.

"Ljóst er að sú þriggja prósenta magnaukning dagvöruveltu sem við sáum á síðari hluta fyrra árs heldur áfram í janúar og verður áhugavert að sjá hvernig þetta þróast. Þrátt fyrir fimm helgar í janúar 2005 á móti 4 árið 2004 lækkar velta vínbúða lítillega, en velta lyfjaverslana er óbreytt miðað við fyrra ár. Þó að sérvöruvelta sé ekki ennþá komin inn í smásöluvísitöluna er vert að geta um þá breytingu sem orðið hefur á útsölum. Þær hófust nú fyrr en áður, þ.e.a.s. strax eftir jól, en lauk einnig almennt fyrr en á síðasta ári eða fyrstu helgina í febrúar," segir Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri SVÞ.

Smásöluvísitalan er reiknuð af Rannsóknasetri verslunarinnar við Viðskipaháskólann á Bifröst samkvæmt upplýsingum sem berast beint frá fyrirtækjunum og ÁTVR. Miðað er við að a.m.k. 80% af veltu í greininni skili sér með þessum hætti. Venjulega er þetta hlutfall þó nokkuð hærra.

Smásöluvelta ÁTVR í áfengi er leiðrétt með viðkomandi verðvísitölu úr neysluverðs-vísitölu Hagstofunnar og lyf sömuleiðis með viðkomandi verðvísitölu fyrir lyf og lækningavörur.