Sala alþjóðlega fyrirtækisins Domino‘s Pizza Inc, aðlöguð fyrir fjölda matsölustaða, hækkaði um 16,1% á öðrum ársfjórðungi samanborið við fyrra ár, samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri. Aukning sölunnar er um 10,7% hærri en greiningaraðilar höfðu spáð. Reuters segir frá .

Domino‘s er ein af fáum matsölukeðjum sem hafa séð aukningu í sölu í heimsfaraldrinum en neytendur virðast sækja í þægindi heimpantaðra pítsa. Fyrirtækið sagði að breyting á neysluvenjum í faraldrinum hafi leitt til aukinna pantanna.

Matsölukeðjan kynnti einnig til leiks nýja snertilausa afgreiðsluþjónustu í Bandaríkjunum þar sem viðskiptavinir geta valið hvar starfsmenn afhenda pítsurnar: í framsætinu, aftursætinu eða skottinu. Sala í gegnum bílalúgur hafa einnig aukist líkt og hjá McDonalds .

Heildartekjur Domino‘s hækkuðu um 13,4% milli ára og námu 920 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi fjárhagsársins sem lauk 14. júní.