Sala Össurar dróst saman um 12% á öðrum fjórðungi ársins, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Össur gerir upp í dollurum, en reiknað í mynt hvers svæðis er samdrátturinn minni, eða 3%.

Hagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, dróst saman um 11% á milli ára, en leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði dróst EBITDA minna saman, eða um 7%. Einskiptiskostnaður í ár nam 638 þúsund dölum og þar á meðal voru starfslokagreiðslur. Á öðrum ársfjórðungi 2008 jöfnuðust einskiptistekjur og einskiptisgjöld að mestu á móti hvort öðru, segir í tilkynningu.

EBITDA-hlutfallið var 21%, sem er sama hlutfall og í fyrra.

Stoðtækin unnu á

Sala Össurar eftir vörutegundum skiptist þannnig að rétt um helmingur eru stuðningsvörur, tæpur helmingur stoðtæki og afgangurinn aðallega blóðrásarmeðferðir. Stoðtækin unnu á, því að þar var 2% vöxtur en 6% samdráttur í stuðningsvörum, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt.

Vöxtur í Ameríku, samdráttur í Evrópu

Sala eftir markaðssvæðum skiptist þannig að svipað hlutfall, tæpur helmingur, er í Ameríku annars vegar og Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku hins vegar. Afgangurinn, um 4%, er í Asíu. Í staðbundinni mynt var 2% vöxtur í Asíu, 1% vöxtur í Ameríku, en 7% samdráttur Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.