Breska matvörufyrirtækið Tesco hefur upplifað verstu sölu í nokkra áratugi, en sala hefur dregist saman um 3,8% síðastliðna þrjá mánuði hjá fyrirtækinu þegar stærtsti smásöluseljandi Bretlands hefur reynt að auka innanlands viðskipti í miðju verðstríði við önnur smásölufyrirtæki.

Sala dróst saman á síðastliðnum þremur mánuðum, miðað við sama tímabil á síðasta ári, þrátt fyrir að í fyrra hafi sala á tímabilinu verið mjög dræm vegna hrossakjöts hneykslisins.

Í viðtali við Financial Times sagði Philip Clarke, forstjóri Tesco, að hann hefði aldrei séð jafn slæma sölu á sínum 40 ára ferli hjá fyrirtækinu. Hann bætti þó við að hann hefði heldur aldrei séð jafn miklar umbreytingar í iðnaðinum. Hann varaði einnig við að sala myndi líklegast ekki aukast í bráð.