Northern Travel Holding er að ganga frá sölu á 22% hlut af eigin bréfum sem það keypti af Sundi, að sögn forstjóra félagsins. „Það er í sjálfu sér frágengin sala á hlutnum,“ segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, forstjóri Northern Travel Holding. „Það er verið að vinna í að klára þau mál,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Þorsteinn Örn segist ekki geta tjáð sig nánar um málið fyrr en tilkynnt verður um söluna.

Fjárfestingafélagið Sund seldi 22% hlut sinn í Northern Travel Holding síðastliðinn desember til félagsins sjálfs. Lögum samkvæmt mega fyrirtæki einungis eiga svo stóran hlut af eigin bréfum í hálft ár. Þorsteinn Örn segir að tímasetning téðrar sölu stangist ekki á við lög, hún sé innan lagaramma. Eigendur Northern Travel Holding eru Fons með 44% hlut, Stoðir eignarhaldsfélag (hét áður FL Group) með 34% og svo hefur Northern Travel Holding átt 22% af eigin bréfum í um það bil hálft ár.

Northern Travel Holding á danska lággjaldafélagið Sterling, Iceland Express, breska flugfélagið Astreus og dönsku ferðaskrifstofuna Heklu Travel, auk 30% hlutar í Ticket í Svíþjóð. Sterling vegur langþyngst í eignasafninu. Tap hefur verið á rekstri Sterling og þurfti Northern Travel Holding að leggja félaginu til aukið fé oftar en einu sinni, að því er fram hefur komið í dönskum fjölmiðlum. Þeir sögðu nýverið frá því að Northern Travel Holding hafi lagt Sterling til 100 milljónir danskra króna (1,6 milljarðar króna á núverandi gengi). Áður hafði eignarhaldsfélagið lagt til 300 milljónir danskra króna (4,8 milljarðar króna) með það að augnamiði að tryggja áframhaldandi rekstur.