Afkoma Landsbankans hf. var jákvæð um 12,7  milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011.  Arðsemi eigin fjár var 26,7%. Til samanburðar nam hagnaður á sama tíma á síðasta ári 8,3 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár þá 21,2%.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 20,4% en var 19,5% í lok árs 2010. Núverandi eiginfjárhlutfall er vel umfram það 16% lágmark eiginfjárhlutfalls sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.  Landsbankinn kynnti uppgjörið á blaðamannafundi í dag en þar voru einnig kynntar aðgerðir bankans sem er gert að lækka skuldir þeirra heimila og einstaklinga sem eru í viðskiptum við bankann.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að góð afkoma skýrist meðal annars af góðri ávöxtun á hlutabréfum í eigu bankans og sölu á eignum. Tekjur af aflagðri starfsemi, þ.e. á dótturfélaginu Vesta og af Icelandic Group koma fram á fyrsta ársfjórðungi. Sú sala skilaði bankanum 4,1 milljarðs króna hagnaði. Á kynningarfundi í dag kom fram að alls nam hagnaður vegna ávöxtunar á hlutabréfum og eignum um 9 milljörðum króna.

Tap á gjaldeyrisstöðu

Tap er á gjaldeyrisstöðu bankans sem hefur neikvæð áhrif á rekstrarreikning. Tapið nemur 2,6 milljörðum króna. Það skýrist að mestu af innbyrðis gengishreyfingum erlendra mynta. Markvisst er unnið að því að draga úr gengisáhættu í rekstri bankans og hefur það skilað miklum árangri frá áramótum.

Virðisrýrnun útlánasafns nemur tæplega 1,8 milljarði króna eftir að tekið hefur verið tillit til gjaldfærslna vegna nýrra úrræða fyrir heimilin og þess hlutar tekna af endurheimt lánasafnsins sem rennur til LBI hf.

Varrúðaráðstafanir vegna dóma

Í tilkynningu um uppgjörið kemur fram að á fyrsta ársfjórðungi leggur bankinn 11 milljarða króna „Þetta er gert til að bókfærð staða slíkra lána sé til samræmis við áætlaða getu viðskiptavina til að standa skil á lánum. varasjóð vegna lána til heimila og einstaklinga.“

Þá er tekið fram, vegna umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um svokallað Mótomax mál, að sérstök gjaldfærsla var í ársreikningi bankans fyrir árið 2010 vegna þessa máls. Landsbankinn hafi því að fullu fært til gjalda það tap sem verður ef málið tapast fyrir Hæstarétti.