Söluaukning varð á vörum Össurar á fyrsta ársfjórðungi 2015 borið saman við sama tíma fyrir ári. Þannig nam sala 114 milljónum bandaríkjadala, sem er 5% aukning frá fyrri ársfjórðungi, þar af 4% innri vöxtur mælt í staðbundinni mynd.

Eftir sem áður dróst hagnaður saman um 21% á milli ára, nam 9 milljónum dala árið 2015 en 11 milljónum á fyrsta ársfjórðungi 2014. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins hafa lækkað á milli ársfjórðunga, úr 116 milljónum dala í 97 milljónir. Þá styrktist EBITDA lítillega á tímabilinu, úr 20 milljónum dala í 21 milljón.

Niðurstaðan í takt við væntingar

„Niðurstöður ársfjórðungsins eru í takt við okkar væntingar. Þrátt fyrir óhagstæð gengisáhrif er rekstrarárangurinn og afkoman góð. Sala á stoðtækjum er mjög góð á öllum helstu mörkuðum og í helstu vöruflokkum og sala á spelkum og stuðningsvörum er í takt við væntingar. Við höfum haldið áfram að leggja aukna áherslu á bætta arðsemi, sem þýðir að við höfum aukið áherslu á hágæðavörur og vörunýjungar sem eiga þátt í jákvæðum niðurstöðum á þessum ársfjórðungi," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar í tilkynningu.