Í júlí jókst veltan í dagvöruverslunum hér á landi um 8,6% miðað við sama mánuð í fyrra, sem rannsóknarsetur verslunarinnar segir hljóta að teljast mikið í þessari gerð verslunar, enda lítil sveifla á henni alla jafna.

Hefur verð á dagvöru hækkað um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og í júlí var það 0,5% hærra en í mánuðinum á undan.

Helstu kaup erlendra ferðamanna eru í matvöruverslunum

Kaup erlendra ferðamanna hér á landi eru að stærstum hluta í matvöruverslunum, en að auki telja verslunarmenn að vaxandi kaupmáttur almennings sé að skila sér meðal annars í auknum matarinnkaupum.

Í sölu áfengisverslana má sjá sömu þróun, en þar var 17% aukning í veltu milli ára.

Þriðjungi meiri sala á húsgögnum

Athyglisvert er að sala á húsgögnum var rúmlega þriðjungi meiri í júlí síðastliðnum en í júlí í fyrra, eða 34,7% meiri, sem er langmesti vöxtur í húsgagnasölu sem af er ári, en júlí er alla jafna ekki mjög veltumikill mánuður hjá húsgagnaverslunum.

Sveiflur milli vörutegunda eru talsverðar í raf-, síma og tölvuverslunum, en sala snjallsíma jókst í síðasta mánuði um 16% frá sama mánuði í fyrra, meðan sala á tölvum dróst saman um 18,5%. Jafnframt var mun meiri veltuaukning í sölu á stórum raftækjum til heimilisnota en á minni tækjum.

Fata- og skóverslun dregst saman

Ein undantekning var þó á hinni almennt auknu veltu í íslenskri verslun í júlí, en minni verlta var í fata- og skóverslun í júlí í ár heldur en í fyrra. Var verð á júlíútsölum í ár 6,6% lægra en í sama mánuði í fyrra og 0,6% lækkun var á verði á skóm, en samt sem áður var samdráttur í fatasölu 3,3% og 3,1% í skóverslun.

Í júlí jókst verslun með byggingarvörur um 4,6% en verð þeirra er 0,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.