Gengi hlutabréfa bandarísku netverslunarinnar Amazon reis um heil 9% eftir lokun viðskipta í gær í kjölfar þess að félagið birti uppgjör sitt fyrir síðasta fjórðung nýliðins árs. Þótt tekjurnar hafi reynst undir væntingum markaðsaðila var Tom Szkutak, fjármálastjóri Amazon, benti m.a. á það á uppgjörsfundi fyrirtækisins að tekjur hafi aukist, ekki síst fyrir þær sakir að sala á rafbókum hafi verið góð á sama tíma og sala á öðrum og dýrari vöruflokkum á borð við sjónvörp og myndavélum dróst saman.

Hagnaður Amazon nam 97 milljónum dala á fjórðungnum sem jafngildir 21 senti á hlut. Meðalspá markaðsaðila hljóðaði hins vegar upp á sex sentum meiri hagnað. Þá námu tekjurnar 21,3 milljörðum dala, sem er 22% aukning á milli ára. Þetta var einum milljarði undir væntingum markaðsaðila. Talsverður munur er á markaðssvæðum Amazon. Afkoman var best í Norður-Ameríku en minni á erlendum mörkuðum.

Fram kom á uppgjörsfundi félagsins vestanhafs í gær að netverslunin stækkaði óðum, s.s. með byggingu vöruhúsa í Kína og Evrópu auk þess sem Amazon hefur opnað netverslanir á Spáni og Ítalíu. Fram kemur í umfjöllun breska viðskiptadagblaðsins Financial Times, að greinendur velti því fyrir sér hvernig stjórnendur Amazon ætli sér að auka afkomuna frekar. Annað hvort verði þeir að draga úr fjárfestingum, s.s. í byggingu vöruhúsa, gagnaverum og Kindle-lesbrettum eða hækka vöruverð.