Sala á farsímum var tvöfalt meiri í síðasta mánuði en í maí í fyrra, samkvæmt upplýsingum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Í smásöluvísitölunni kemur m.a. fram að í maí keyptu landsmenn farsíma fyrir 69,1% hærri upphæð en í sama mánuði fyrir ári. Á sama tíma lækkaði verð á farsímum samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar um 16% en það felur í sér að raunvelta í sölu farsíma tvöfaldaðist á milli ára. Aukningin nam 100,7% á milli ára.

Ástæðan fyrir þessum mikla vexti er að snjallsímar eru í auknum mæli að taka við af eldri gerðum farsíma. Tekið er fram í gögnum Rannsóknarsetursins að í maí hafi tvær nýjar gerðir af snjallsímum komið á markað en það hafði í för með sér mikla endurnýjun. Á sama tíma fer netnotkun í auknum mæli fram í gegnum símtækin, að því er segir í upplýsingum Rannsóknarseturs verslunarinnar.