Velta í dagvöruverslun dróst saman um 6,0% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og um 0,7% á breytilegu verðlagi, samkvæmt nýrri smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar.  Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana í apríl saman um 1,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hefur hækkað um 5,6% síðasta árið. Rannsóknasetrið segir almennt ekki miklar breytingar í kaupmætti og neyslu á tímabilinu. Almennt eru ekki miklar breytingar í kaupmætti og neyslu. Þannig var kaupmáttur launa í mars 1,5% meiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt mælingu Hagstofunnar.

Helsta breyting í smásöluverslun í apríl var aukning í sölu á farsímum og tölvum, líkt og verið hefur síðustu mánuði. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs var velta í sölu farsíma 38% meiri en á sama tímabili í fyrra að raunvirði og sala á tölvum og jaðarbúnaði jókst á þessum tíma um 29%. Það sem af er þessu ári hefur minni vöxtur verið í sölu á öðrum raftækjum eins og sjónvörpum og hljómflutningstækjum.

Velta í sölu á tölvum í apríl jókst um 40,9% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og farsímasala jókst um 68,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, minnkaði um 1,1% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 22,7% á milli ára.

Smásöluvísitala Rannsóknaseturs verslunarinnar