Framkvæmdum við 2. áfanga 101 Skuggahverfis miðar vel en fimm byggingar verða reistar í þessum áfanga, samtals 97 íbúðir. Í frétt félagsins kemur fram að í byrjun júní hefst sala 13 íbúða sem flestar eru á efstu hæðum en afhending miðast við að þær verði tilbúnar undir innréttingar. Í september er áætlað að hefja sölu 84 íbúða sem afhentar verða fullbúnar.

Í dag var undirritaður samningur milli 101 Skuggahverfis og Eignamiðlunar, elstu starfandi fasteignasölu landsins, um sölu íbúðanna.

Harpa Þorláksdóttir, markaðsstjóri 101 Skuggahverfis, segir að íbúðunum sé sýndur mikill áhugi. ?Yfir 400 manns hafa skráð sig á lista yfir áhugasama. Margir hafa reglulega samband til að fá fréttir af framkvæmdunum en íbúðirnar sem seldar verða nú í júní bjóða upp á einstakt útsýni.?

Vinna við grunn allra húsa sem eftir er að byggja er á lokastigi. Undir byggingunum verða bílageymslur á þremur hæðum, þaðan sem innangengt verður að lyftum húsanna. Íslenskir aðalverktakar hf., ÍAV, sjá um byggingarframkvæmdir við 2. áfanga. Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun en þeim á að ljúka um mitt ár 2009.

Íbúðirnar í 2. áfanga 101 Skuggahverfis verða 67-300 fermetrar að stærð. Þrjár byggingar tilheyra Vatnsstíg. Skúlagötumegin verður 19 hæða turn, alls 63 metrar hár, með 42 íbúðum. Við Vatnsstíg verður átta hæða bygging með 15 íbúðum. Tvær byggingar verða við Lindargötu, þriggja hæða bygging með 9 íbúðum og 11 hæða bygging með 31 íbúð.

Við hönnum og framkvæmdir er lögð rík áhersla á gæði og glæsilega hönnun auk þæginda. Lofthæð er yfirleitt um 2,70 metrar en nokkrar íbúðir eru með þaksvölum og möguleika á heitum potti og arinstæði.

Hönnuðir 101 Skuggahverfis eru danska arkitektastofan Schmidt, Hammer & Lassen, Hornsteinar arkitektar, Verkfræðistofan Línuhönnun og Raftæknistofan hf. Eftirlit með framkvæmdum er í höndum Verkfræðistofu Þráins og Benedikts. Fjármögnun verkefnisins er í höndum Kaupþings.

Þrjár byggingar verða reistar í 3. áfanga en þegar 101 Skuggahverfi er að fullu byggt verða 15 íbúðabyggingar og um 250 íbúðir á reit sem markast af Skúlagötu, Frakkastíg, Lindargötu og Vatnsstíg. Munu íbúðaturnarnir þrír setja sterkan svip á strandlengju Reykjavíkur norðanverða.