Fyrsta húsið í nýrri byggð yst á Kárnesinu er komið í sölu en um er að ræða 24 íbúða fjölbýlishús við Hafnarbraut 9 í Kópavogi. Áætlað er að íbúðir í húsinu verði afhentar á vormánuðum 2019. Kársnesbyggð ehf, sem er lóðarhafi og seljandi íbúðanna, hefur samið við fasteignasölurnar Lind og Miklaborg um sölu á íbúðum í húsinu.

,,Hafnarbraut 9 er fallegt fjölbýlishús á góðum stað í nýju og spennandi hverfi við sjávarsíðuna yst á Kársnesi. Íbúðirnar eru mjög vel hannaðar og vandað er til verka við byggingu þeirra. Mikið er lagt upp úr hönnun og nýtingu rýma íbúða til að ná fram hagkvæmi og auka notagildi. Þetta er spennandi verkefni bæði þetta nýja fjölbýlishús og hverfið í heild sinni sem verður mjög fallegt og á einum besta stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með nálægð við sjóinn og smábátahöfnina. Með nýrri brú yfir Fossvoginn munu almenningssamgöngur og umferð fyrir gangandi og hjólandi stórbatna og stytta leið yfir á háskólasvæðið og miðbæ Reykjavíkur," segir Fanney Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Kársnesbyggð ehf. Íslenskar fasteignir fara með umsjón með verkefninu.

Íbúðirnar í húsinu eru tveggja til fjögurra herbergja, frá 59,3 fm til 172,4 fm að stærð. Við byggingu hússins var lögð áhersla á að lágmarka viðhald þess. Lokað bílageymsluhús er í kjallara og fylgir rafmagnstengill hverju stæði. Að sögn Fanneyjar er fyrirhugað að þessi nýja byggð muni rísa öll í einni lotu á næstu fimm árum en unnið er að hreinsun ákveðinna lóða þar sem eldri atvinnuhús munu víkja. Þá er einnig unnið að breikkun göngustíga og breytingu á götum til að aðlaga hverfið að stækkun byggðar.