Sala LVMH, sem á meðal annars Louis Vuitton og Dior, er orðin meiri en fyrir faraldurinn. Tekjur tískurisans námu 14,7 milljörðum evra á öðrum ársfjórðungi, sem er 14% aukning frá sama tímabili árið 2019. Sala fyrirtækisins á kampavíni var um 10% hærri en á öðrum fjórðungi 2019.

Samstæðan, sem er stýrð af milljarðamæringinum Bernard Arnault, naut góðs af mikilli eftirspurn í Bandaríkjunum og Kína. Fjárfestar voru búnir að hafa áhyggjur af því að útgjöld fólks til lúxusvara myndu dragast saman um leið og það hefði kost á að eyða peningum í ferðalög og afþreyingu á ný, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Þær áhyggjur hafa ekki raungerst enn þá.

Hlutabréfaverð LVMH hefur hækkað um meira en 30% í ár. Fyrirtækið er nú orðið það stærsta í Evrópu ef horft er til markaðsvirðis. Bernard Arnault og fjölskylda fór upp fyrir Jeff Bezos og situr nú í efsta sæti auðmannalista Forbes.

Sala Gucci, sem er í eigu Kering samstæðunnar, er einnig orðin meiri en árið 2019. Tekjur Gucci á öðrum ársfjórðungi jukust um 82% á milli ára og námu 2,3 milljörðum evra. Salan á fyrsta fjórðungi var einni prósentu hærri en á sama tíma árið 2019.