*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 26. janúar 2021 19:46

Sala heimsends bjórs fimmtánfaldaðist

Bjórland býður nú áskrift af heimsendum handverksbjór. Jóladagatöl fullorðna fólksins seldust upp.

Höskuldur Marselíusarson
Þórgnýr Thoroddsen er stofnandi Bjórlands sem er netverslun með íslenskan handverksbjór.
Aðsend mynd

Þórgnýr Thoroddsen stofnandi netverslunarinnar Bjórlands vonast eftir að með nýrri áskriftarleið sem félagið býður nú upp á verði hægt að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn. Hann segir að frá því í sumar fram til nóvember hafi verið nánast fimmtánföldun í sölu hjá félaginu, en desember og janúar hafi verið hægur svo hægt sé að tala um sexföldun í veltu frá því hann byrjaði í sumar.

„Við höfum verið að selja bjór í heimsendingum frá því í júní á þeirri forsendu að það eigi að gilda sömu reglur um vefverslanir hér á Íslandi og á Evrópusvæðinu. Nýja áskriftarleiðin er viðbótarþjónustuleið þar sem fólk getur þá gulltryggt sér aðgang að þeim bjórum sem eru til í mjög takmörkuðu magni, og líka þá sem eru gefnir sérstaklega út fyrir Bjórland. Við fyllum áskriftarpakkana með því nýjasta og ferskasta frá hverju handverksbrugghúsi fyrir sig hverju sinni," segir Þórgnýr.

„Áskriftarleiðirnar sem við bjóðum er það sem við köllum litla og stóra pakkann, en þar leikum við okkur aðeins með nafnið Bjórland og köllum þá almenna borgarann og góðborgarann, sem kosta þá fimm og tíu þúsund krónur. Það er meiri bjór í góðborgaranum, og meira fyrir peninginn, auk þess sem þeir sem eru í þeirri áskrift fá fastan 10% afslátt af vörum Bjórlands. Hugmyndin er svo að fyrir hvern mánaðarlega pakka verði gerð vefsíða sem verði öllum aðgengileg þar sem fram kemur hvaða bjórar eru í pakkanum og af hverju við völdum þá, og hvað sé merkilegt við þessa tilteknu bjóra auk upplýsinga um brugghúsin sjálf sem bjórnördar geta þá lagst yfir."

Þórgnýr segir aðalvandann í svona rekstri, og svo sem fyrir áhugamenn um handverksbjóra almennt, sé að hafa yfirsýn yfir markaðinn. Hann segir jafnframt að reksturinn sé ekki farinn að skila hagnaði enn sem komið er en hann vonast til þess að svo verði innan tíðar með fleiri þjónustuleiðum og hækkandi sól.

„Það eru fullt af litlum brugghúsum sem fólk veit ekki að eru til út um land allt, eitt af þeim nýjustu er til dæmis Litla brugghúsið í Garðinum, svo er 6A, nýtt brugghús á Akureyri sem er að fara að gefa út sinn fyrsta bjór, en einnig má nefna Múla á Egilsstöðum. Það eru fullt af lítt þekktum brugghúsum sem þurfa að komast í sviðsljósið," segir Þórgnýr.

„Okkar sérstaða er að við seljum eingöngu íslenskan handverksbjór, og við afmörkum okkur við brugghús sem eru skilgreind af Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa sem handverksbrugghús, sem og þau sem eru of lítil til að fá skilgreiningu sem handverksbrugghús. Þannig að þumalputtareglan hjá okkur er Kaldi og minni brugghús, það er sá bjór sem við seljum."

Lögin óbreytt en látin í friði

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hugðist Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp sem hefði heimilað brugghúsum sem framleiða undir 500 þúsund lítra af áfengu öli undir 12% styrkleika að selja áfengi beint án milligöngu ÁTVR, en frumvarpið er ekki orðið að lögum.

Þórgnýr segir litlu brugghúsin hafa verið að kalla eftir breyttum reglum, meðal annars vegna þess að með fækkun ferðamanna hafi grundvöllurinn undir rekstrinum horfið líkt og í ferðaþjónustu og öðrum veitingarekstri, því þau hafi ekki getað boðið upp á heimsendingu líkt og mörg fyrirtæki hafi getað gert í heimsfaraldrinum.

Jafnframt hafi fyrirtækin ekki getað tekið þá áhættu sem felst í mismunandi reglum innanlands og á EES svæðinu, sjálf, og sama eigi við um stærri heildsöluaðila með áfengi og eða stóru brugghúsin, og því hafi þurft nýjan aðila á markaðinn til að reyna á íslensku sérreglurnar. Spurður hvort lögreglan hafi haft afskipti af rekstrinum segir hann svo ekki vera.

„Við höfum verið alveg látin vera í friði með þetta, enda held ég að markmiðið sé að breyta fyrirkomulagi vefverslunar með áfengi á Íslandi þannig að hún sé eins og í Evrópusambandinu, frekar en að níðast á henni hér á landi sérstaklega. Ég held líka að það sé af því að þetta mál er ekkert jafnklippt og skorið og fólk heldur. Þessar breytingar hafa líka reglulega legið fyrir, og verið nokkuð mikið í umræðunni undanfarin ár, þó í mismunandi formi en framan af snerist hún um það hvort leyfa ætti sölu á áfengi í kjörbúðum eða jafnvel öðrum sérverslunum en ríkisins," segir Þórgnýr sem segir eftirspurnina hjá Bjórlandi ágæta.

„Við byrjuðum þarna í júní en sumarið er alla jafna hægur tími í heimsendingum enda fólk mest að ferðast um og jafnvel með þá rútur af bjór í skottinu en með haustinu lifnaði meira yfir þessu. Síðan tók þetta þokkalegan kipp þegar ég fór að gefa út sérbjóra í október. Það er annars vegar á Joey Jo-Jo Junior Shabadoo, sem seldur var í takmörkuðu upplagi frá Brugghúsinu Ægi á Ægissíðu sem var alveg þrælgóður IPA, og hins vegar gaf Bjórland sjálft út bjórinn Kvíða í samstarfi við Dokkuna á Ísafirði."

Öll fjölskyldan raðaði í jóladagatölin

Hann segir það hafa skilað sér vel fyrir fyrirtækið að vera með svona sérbjóra því fólk hafi keypt þá sérstaklega og þá í leiðinni viljað prófa ýmsa aðra fágæta bjóra og notað tækifærið til að kaupa þá.

„Í kjölfarið á því gáfum við út jóladagatal fyrir fullorðna fólkið, en það var bara bjórkassi sem við létum hanna fyrir okkur með 24 númeruðum götum. Síðan vorum við með alla fjölskylduna í því að raða í kassana í rúma viku og seldum duglega af þessum dagatölum út um allt land. Það var eiginlega kvartað yfir því að það væri ekki meira í boði, en við höfðum bara svo takmarkaða framleiðslugetu, við hefðuð ekki getað framleitt meira af þeim fyrir þessi jól, það hefði bara endað í vitleysu," segir Þórgnýr sem nefnir nokkrar af þeim tegundum sem hafa verið vinsælar hjá Bjórlandi.

„Litla brugghúsið í Garðinum komu fram með þrjá bjóra strax í upphafi, Skeggja, Keili og Garðskaga, sem greinilegt er að nærsamfélagið þarna á Reykjanesinu er mjög meðvitað um því ég hef klárað upplagið frá þeim núna tvisvar. Síðan hefur verið skemmtilega mikill vöxtur í sölu á Cucumber Kiss frá Gæðing, og Forseta IPA frá Ölvisholti."

Mikil hefð fyrir hnyttnum nafngiftum

Loks segir Þórgnýr að skemmtilegt sé hversu algent er að fyrirtæki leiki sér með nöfn og sértækt myndmál á handverksbjórunum.

„Maður sér sérstaklega með svona sérbjóra sem koma í takmörkuðu upplagi að það er verið að leika sér með nöfnin, og hefur lengi verið viðloðandi bjórbransann að vera með einhvers konar pun. Til dæmis hefur Ægisgarður mikið verið í því. Þar má nefna jólabjórinn Heilög eilífð, þar sem verið er að leika sér með það að um var að ræða bjór sem var látinn eldast í 24 mánuði á tunnu, það er þeir þurftu að bíða í heila eilífð.

Síðan var Súr á móti líka að koma frá Ægisgarði, sem var mekt sem LemonIPAde, og svo voru þeir með annars vegar Hohoho, sem var 6% bjór og svo komu þeir með Hohoholíshit, sem var 8% brown ale. Einnig kom Smiðjan á Vík með Haltáketti og Chocoho og svo var Brothers brewery í Vestmannaeyjum með Sigla humla fley," segir Þórgnýr sem segir að með hækkandi sól koma eflaust fleiri sértækir bjórar á markað.

„Maður heyrir það frá brugghúsunum að þau eru svolítið í því að búa til ávaxtabjóra á sumrin, en sem dæmi þá seldist rosalega vel af Shandy bjór frá Álfi, sem hét Álfadís, í sumar, sem er eins konar millistig af límónaði og bjór. Síðan er Yuzu reyndar með mjög reglulega sölu yfir allt árið, en það er mjög góður grunnlager, sem er með keim af japanska súraldinu Yuzu, sem er víst það súrasta sem fyrirfinnst í veröldinni. Ég hef smakkað ávöxtinn, hann var alveg hellaður."