Tekjur Skakkaturns ehf., umboðsaðila Apple á Íslandi, námu tæplega sex milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 4,9 milljarða árið 2019, og jukust því um 22% milli ára. Hagnaður félagsins jókst um 38% milli ára og nam 366 milljónum króna.

Um 53% af tekjum félagsins eru vegna sölu á vörum og þjónustu til fimm stærstu viðskiptamanna þess, en sama hlutfall var 57% árið 2019. Í ársreikningi félagsins segir að faraldurinn hafi ekki haft neikvæð áhrif á starfsemi félagsins á árinu og félagið nýtti sér engin þau úrræði sem stóðu til boða félögum í rekstrarvanda.

Meðalfjöldi starfsmanna umreiknaður í heilsársstörf lækkaði úr 29,0 í 26,6 á milli ára. Laun og launatengd gjöld námu 262 milljónum króna á síðasta ári.

Eignir Skakkaturns voru bókfærðar á 1,8 milljarða króna í árslok 2020. Eigið fé félagsins var 983 milljónir króna og skuldir 797 milljónir.

Guðni Rafn Eiríksson er framkvæmdastjóri og eigandi Skakkaturns. Greiddar voru út 130 milljónir vegna rekstrarársins 2019 en í skýrslu stjórnar kemur fram að ekki verði greiddur út arður vegna síðasta árs.