Oddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun á ný fram frumvarp um sölu ríkisins á hlut sínum í fjármálafyrirtækjum. Þetta er sama frumvarp og lagt var fram á síðasta þingi en féll út af málaskrá með fleiri málum. Samkvæmt þingsköpum þarf að flytja málið á ný.

Frumvarpið fjallar um heimild til fjármálaráðherra til að hlutast til um sölu á eignahlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum að undangengnum tillögum Bankasýslunnar.

Bankasýslan hefur þegar lagt til að söluferli á nokkrum sparisjóðum verði hafið í haust. Þegar hefur verið reynt að selja Sparisjóð Svarfdæla á Dalvík til Landsbankans. Samkeppniseftirlitið mælti hins vegar gegn sölunni og varð úr að Tryggingasjóður sparisjóðanna lagði sparisjóðnum til nýtt stofnfé og víkjandi lán.

Ríkið á jafnframt 5% hlut í Íslandsbanka, 13% hlut í Arion banka og rúmt 81% í Landsbankanum.