Verslunarkeðjan Iceland, sem Baugur, Stoðir (áður FL Group) og fleiri íslenskir aðilar eiga 60% í, getur státað af metsölu að undanförnu samkvæmt upplýsingum frá markaðsrannsóknarfyrirtækinu TNS í Bretlandi.

Á milli 10. maí til 10. ágúst jókst salan í verslunum fyrirtækisins um 14,4%, sem er miklu mun meira en gerst hefur hjá hinum stórmarkaðskeðjunum í Bretlandi, að Aldi undanskilinni.

Greiningaraðilar telja að rekja megi þessa miklu söluaukningu Iceland til þess að breskir neytendur hafi minna á milli handanna en áður og kaupi því ódýrari matvæli. Iceland sérhæfir sig í sölu frosinna matvæla á hófstilltu verði.

Fons, fjárfestingarfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, seldi meirihlutann af hlutabréfum sínum í Iceland á dögunum, en fyrirtækið hefur malað eigendum sínum gull síðan þeir eignuðust það 2005.

Bretar loks sólgnir í lágvöruna

Þýska lágvörukeðjan Aldi hefur nú um 3% markaðshlutdeild á breskum matvörumarkaði, en hafði á sama tíma í fyrra 2,6% hlutdeild.

Á umræddu tólf vikna tímabili jókst salan í Aldi-verslunum um 19,8%, sem að sögn Financial Times er talin vera óhrekjandi vitnisburður þess að breskir neytendur eru nú áhugasamari en áður fyrir lágvöruverslunum.