Þýski risabankinn Deutsche Bank er talinn hafa keypt Icesave-kröfu Hollendinga á þrotabú gamla Landsbankans, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Krafan er forgangskrafa í þrotabúið. Ekki liggur fyrir hvert verðið var en krafan hljóðar upp á 130 milljarða króna. Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að Hollendingar hafi selt kröfu. Hollenski seðlabankinn mun greina nánar frá málinu í dag. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar gamla Landsbankans, segir þetta ekki hafa áhrif á slitaferlið og bendir á að kaup og sala á kröfum sem þessari í bú bankans sé slitastjórninni óviðkomandi.

Krafan er tilkomin með þeim hætti að eftir að gamli Landsbankinn fór á hliðina í október árið 2008 urðu Icesave-innlánsreikningarnir sem bankinn hafði boðið viðskiptavinum sínum upp á í Bretlandi og Hollandi óaðgengilegir. Í kjölfarið tóku stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi þá ákvörðun að greiða innstæðueigendum í löndunum þá upphæð sem þau höfðu áður gengis í ábyrgð fyrir vegna banka þar í landi.

Icesave-krafan hljóðaði upphaflega upp á rúma 1.300 milljarða króna.  Búið er að greiða um helming Icesave-krafna og standa eftir um 600 milljarðar króna. Bretar eru stærstu kröfuhafarnir í Icesave-málinu en krafa þeirra nemur um 400 milljörðum króna.

Með kaupum Deutsche Bank á Icesave-kröfu hollenska ríkisins eru helstu forgangskröfuhafar í bú gamla Landsbankans breska ríkið og nokkur bresk sveitarfélög.