Salan á símum undir merkjum iPhone 5 úr smiðju Apple hefur ekki gengið sem skyldi. Forsvarsmenn Apple hafa af þeim sökum endurskoðað kaup sín á íhlutum í símana og kaupa færri hluti en áður. Sem dæmi hafa helmingi færri skjáir fyrir símana verið pantaðir fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal segir að líklega muni þetta eiga við um fleiri íhluti til farsímaframleiðslunnar.

Blaðið segir ástæðuna fyrir því að áætlanir Apple-liða hafi ekki staðist þá að sala á símum keppinauta á borð við Samsung og frá öðrum fyrirtækjum sem framleiða síma sem keyra á Android-stýrikerfinu frá Google harðari en búist var við. Blaðið bendir jafnframt á að vöruúrval Apple sé takmarkaðra en Samsung, sem bjóði upp á síma í mörgum verðflokkum.

Þessi aukna samkeppni á farsímamarkaði hefur sett skarð í markaðshlutdeild Apple, sem fór úr 23% á fjórða ársfjórðungi 2011 og þeim fyrsta í fyrra í 14,6% á þriðja ársfjórðungi á síðasta ári. Á sama tíma hefur hlutdeild Samsung rokið úr 8,8% á þriðja ársfjórðungi árið 2010 í 31,3% á þriðja fjórðungi í fyrra.