Tekjur Apple á fyrsta fjórðungi ársins námu nærri 90 milljörðum dala og jukust um 54% milli ára, töluvert umfram væntingar greiningaraðila sem höfðu spáð 77 milljarða dala tekjum. Financial Times greinir frá.

Hagnaður netrisans á ársfjórðungnum hækkaði um 110% milli ára og nam 23,6 milljörðum dala, eða um 2.900 milljarðar króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Til samanburðar var verg landsframleiðsla á Íslandi á öllu síðasta ári um 2.941 milljarður króna. Apple er verðmætasta skráða fyrirtæki heims en markaðsvirði félagsins er um 2.243 milljarðar dala í dag.

Tekjur af iPhone vega 54% af heildartekjum Apple

Nýja 5G útgáfan af iPhone virðist hafa slegið í gegn en alls jókst sala á snjallsímunum um 66% milli ára. Tekjur af iPhone námu 47,9 milljörðum dala, eða um 54% af heildartekjum Apple á fjórðungnum.

Söluvelta af Mac tölvunum jókst um 70% milli ára og vó um 10% af heildartekjum Apple. iPad spjaldtölvurnar voru einnig mjög vinsælar í faraldrinum en salan á þeim hækkaði um 79% milli ára og var um 8,7% af heildartekjum á fjórðungnum.

Sjá einnig: Apple kaupir fyrirtæki á mánaðarfresti

Minnsti vöxturinn var í flokki aukahlutir, sem inniheldur m.a. Apple Watch og AirPods, en sala í þessum flokki jókst um 25% milli ára. Vöxtur í þjónustuflokki fyrirtækisins, sem inniheldur App Store, var um 27%, um tíu prósentustigum umfram væntingar.

Netrisinn gerir þó ráð fyrir að skortur á örflögum muni hafa um 3-4 milljarða dala neikvæð áhrif á heildarsölu á núverandi ársfjórðungi.